Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Aldrei fleiri á Vísindavöku!

Vísindavaka2009 (41) má ég sjáVísindavaka Rannís 2010 var haldin föstudaginn 24. sept. sl. og mættu 4200 gestir á vökuna. Gestir Vísindavöku fengu tækifæri til að hitta vísindamenn og fræðifólk úr öllum fræðigreinum frá háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum, sem sögðu frá rannsóknum sínum og viðfangsefnum á skemmtilegan og lifandi hátt. Rannís þakkar sýnendum fyrir þeirra framlag og gestum fyrir komuna. Sjáumst á Vísindavöku 2011!

Til hamingju með daginn vísindamenn!

Visindavaka RannísVísindavaka Rannís er haldin föstudaginn 24. september kl. 17-22 á Degi evrópska vísindamannsins. Vísindavaka er haldin í flestum borgum Evrópu á sama tíma og markmiðið er að færa vísindin nær almenningi og gefa fólki kost á að spjalla við fræðimenn um rannsóknir þeirra og viðfangsefni. Um 70 sýningarbásar eru á Vísindavöku 2010, lifandi vísindamiðlun verður á sviði, auk þess sem vísindasmiðja verður fyrir börn. Sprengjugengið mætír á svæðið, boðið verður í stjörnuskoðun, Vísindavefurinn spurður út úr og súkkulaði sent um internetið. Vísindavaka Rannís er fyrir alla fjölskylduna! Dagskráin og listi sýnenda hér.

Vísindakaffin fara vel af stað

Fyrsta Vísindakaffi Vísindavöku var í gær og mættu 90 manns til að heyra Pál Einarsson jarðeðlisfræðing við HÍ segja frá hvar muni gjósa næst. Vísindakaffið í kvöld, þriðjudag 21. sept., fjallar um hvað á að vera í stjórnarskrá og hvers vegna, og verður það Ragnhildur Helgadóttir prófessor við lagadeild HR sem fræðir okkur um það.

Vísindakaffin eru á Súfistanum, Máli og menningu Laugavegi kl. 20-21.30. Komið í Vísindakaffi og fáið ykkur kvöldkaffi með Rannís í aðdraganda Vísindavöku


Dagskrá Vísindakaffis Vísindavöku 2010

Áhugasamir um rannsóknir og fræði hvurs konar ættu ekki að láta Vísindakaffi Rannís fram hjá sér fara, en í aðdraganda Vísindavöku er hellt upp á fjögur Vísindakaffi á Súfistanum í Máli og menningu á Laugavegi, 20., 21., 22. og 23. september, kl. 20-21:30 hvert kvöld. Umræðuefni fræðifólksins, sem tekur þátt að þessu sinni, tekur nokkuð mið af umræðunni í þjóðfélaginu, en efni kaffana eru eldfjöll, stjórnarskrár, stofnfrumurannsóknir og þjóðardýrðlingar. Hér er dagskrá vikunnar á Súfistanum:

 

Vísindakaffi 2010

Dagskrá á Súfistanum í Máli og menningu, Reykjavík:

Mánudagur 20. september, kl. 29-21:30
Eldfjöll - hvar gýs næst?
Páll Einarsson prófessor í jarðeðlisfræði fjallar um aðferðir til að fylgjast með virkni eldfjalla og segja fyrir um hegðun þeirra. Af hverju er stundum hægt að spá og stundum ekki?

Þriðjudagur 21. september, kl. 20-21:30
Hvað á að vera í stjórnarskrá?
Stjórnarskrár landa geta fjallað um allt milli himins og jarðar. Í tilefni stjórnlagaþings og endurskoðunar stjórnarskrár ræðir dr. Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, um það hvað á að vera í stjórnarskrám og hvers vegna.

Miðvikudagur 22. september, kl. 20-21:30 
Stofnfrumur - tækifæri eða tálsýn? 
Dr. Sveinn Guðmundsson yfirlæknir Blóðbankans og dr. Ólafur E. Sigurjónsson forstöðumaður stofnfrumuvinnslu og grunnrannsókna í Blóðbankanum fjalla um eiginleika stofnfrumna, skýra muninn á "stofnfrumum úr fósturvísum" og "vefjasértækum stofnfrumum", kynna notkun blóðmyndandi stofnfrumna í læknisfræðilegri meðferð, ræða og vara við oftrú á "galdramætti" stofnfrumna í nútíma læknisfræði; en kynna jafnframt not blóðmyndandi stofnfrumna t.d. með stofnfrumugjafaskrám og naflastrengsbönkum.

Fimmtudagur 23. september, kl. 20-21:30
Hver eru sameiningartákn íslensku þjóðarinnar? Frá Njáli Þorgeirssyni til Helga Hóseassonar
Jón Karl Helgason dósent við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands fjallar um hvernig ýmsar persónur úr íslenskri sögu og bókmenntum hafa í ákveðinn tíma orðið fulltrúar þjóðarinnar allrar eða tiltekinna hópa. Meðal þess sem ber á góma eru styttur og minnismerki í Reykjavík, rithöfundasöfn á landsbyggðinni, götuheiti og íslenskir peningaseðlar.


Vísindavaka um alla Evrópu

Vísindavaka Rannís er hluti af samevrópsku verkefni og er haldin í tilefni af Degi evrópska vísindamannsins og kallast "Researchers' Night". Á sama tíma og við skemmtum okkur og fræðumst í Hafnarhúsinu 24. sept nk., eru sams konar viðburðir haldnir út um alla Evrópu.

Undirbúningur Vísindavöku 2010 kominn á fullt

Visindavaka 2010Vísindavaka 2010 verður föstudaginn 24. september 2010 í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsinu kl. 17-22. Á Vísindavöku Rannís finna allir eitthvað við sitt hæfi og sérstök áhersla verður lögð á að ná til fjölskyldna, barna og ungmenna. Missið ekki af fjörugri fræðslu! www.rannis.is

Vísindavaka slær í gegn

Vísindavaka 2009 sló öll aðsóknarmet, aldrei hafa fleiri gestir sótt vökuna heim til að kynna sér viðfangsefni jafnmargra vísinda- og fræðimanna, en 2.790 manns komu á Vísindavökuna á föstudaginn var. Rannís þakkar sýnendum, styrktaraðilum og samstarfsaðilum fyrir frábæra samvinnu. Sjáumst á Vísindavöku 2010!

Til hamingju með daginn, vísinda- og fræðimenn!

Visindavaka LogoVísindavaka er í dag föstudaginn 25. september í tilefni af Degi evrópska vísindamannsins og er hún haldin á sama tíma í helstu borgum Evrópu. Vísindavakan verður í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsinu kl. 17-22. Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, opnar Vísindavöku og afhendir verðlaun í teiknisamkeppni barna og síðan hefjast atriði á sviði þar sem Sprengjugengið, Vísindavefurinn og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness mæta meðal annarra. Sýnendur hafa aldrei verið fleiri og mun fjöldi gesta sækja Vísindavökuna þannig að búast má við þröng á þingi! Það er greinilega mikill hugur í vísinda- og fræðimönnum þjóðarinnar og mikil gróska í rannsókna- og nýsköpunarstarfi.

Aldrei fleiri á Vísindavöku

Vísindavaka Rannís var haldin föstudaginn 26. september sl. í Listasafni Reykjavíkur. Aldrei hafa fleiri gestir sótt Vísindavökuna, en um 2000 manns lögðu leið sína í Listasafnið til að hitta vísindamenn og kynnast viðfangsefnum þeirra. Við opnunina voru afhent verðlaun í teiknisamkeppni barna og ljósmyndasamkeppni unga fólksins þar sem efnið var „Vísindin í daglegu lífi“, auk þess sem viðurkenning Rannís fyrir framlag til Vísindamiðlunar var veitt. Að þessu sinni hlaut Örnólfur Thorlacius viðurkenninguna. Hallgrímur Jónasson forstöðumaður Rannís og Hellen M. Gunnarsdóttir deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu afhentu verðlaunin. Vísindavakan er haldin í tilefni af Degi Evrópska vísindamannsins og er hún haldin á sama tíma í helstu borgum Evrópu. Markmiðið með framtakinu er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Áhersla var lögð á lifandi kynningar og skemmtilega og fræðandi viðburði fyrir alla fjölskylduna. Rannís þakkar samstarfsaðilum, sýnendum, styrktaraðilum, gestum og öðrum þátttakendum. Sjáumst á Vísindavöku 2009!

Til hamingju með daginn vísindamenn!

VísindavakaVísindavaka 2008 er í dag, föstudaginn 26. september, í tilefni af Degi Evrópska vísindamannsins og er hún haldin á sama tíma í helstu borgum Evrópu. Vísindavakan verður í Listasafni Reykjavíkur kl. 17-22. Við opnunina verða afhent verðlaun í teiknisamkeppni barna og ljósmyndasamkeppni unga fólksins, auk þess sem viðurkenning Rannís fyrir framlag til Vísindamiðlunar verður veitt.  Markmiðið með framtakinu er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Verður það gert með lifandi kynningum og boðið upp á skemmtilega og fræðandi viðburði fyrir alla fjölskylduna. Allar vísindagreinar eru kynntar á Vísindavöku, hugvísindi jafnt sem raunvísindi. 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband