Færsluflokkur: Menning og listir

Viltu taka þátt í Vísindavöku 2011?

Vísindavaka 2011 – stefnumót við fræðimenn verður haldin föstudaginn 23. september nk. í Háskólabíói.

Stofnanir, háskólar og fyrirtæki sem hafa áhuga á að taka þátt í Vísindavöku geta nálgast kynningarbréf og skráningarblað hér.

Í ár hefur Vísindavöku Rannís verið boðið að vera í samstarfi við 100 ára afmæli Háskóla Íslands. Háskólabíó er nýr og spennandi staður fyrir vökuna, sem býður bæði upp á hefðbundið sýningarsvæði en einnig bíósalina, sem verða nýttir til að auka enn á fjölbreytni lifandi vísindamiðlunar á sviði.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í Vísindavöku 2011 skulu senda skráningarblað fyrir 30. ágúst til Aðalheiðar Jónsdóttur kynningarstjóra Rannís í netfnagið alla@rannis.is. Í kjölfarið verður haft samband við þátttakendur varðandi nánari útfærslu.


Aldrei fleiri á Vísindavöku!

Vísindavaka2009 (41) má ég sjáVísindavaka Rannís 2010 var haldin föstudaginn 24. sept. sl. og mættu 4200 gestir á vökuna. Gestir Vísindavöku fengu tækifæri til að hitta vísindamenn og fræðifólk úr öllum fræðigreinum frá háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum, sem sögðu frá rannsóknum sínum og viðfangsefnum á skemmtilegan og lifandi hátt. Rannís þakkar sýnendum fyrir þeirra framlag og gestum fyrir komuna. Sjáumst á Vísindavöku 2011!

Til hamingju með daginn vísindamenn!

Visindavaka RannísVísindavaka Rannís er haldin föstudaginn 24. september kl. 17-22 á Degi evrópska vísindamannsins. Vísindavaka er haldin í flestum borgum Evrópu á sama tíma og markmiðið er að færa vísindin nær almenningi og gefa fólki kost á að spjalla við fræðimenn um rannsóknir þeirra og viðfangsefni. Um 70 sýningarbásar eru á Vísindavöku 2010, lifandi vísindamiðlun verður á sviði, auk þess sem vísindasmiðja verður fyrir börn. Sprengjugengið mætír á svæðið, boðið verður í stjörnuskoðun, Vísindavefurinn spurður út úr og súkkulaði sent um internetið. Vísindavaka Rannís er fyrir alla fjölskylduna! Dagskráin og listi sýnenda hér.

Vísindavaka slær í gegn

Vísindavaka 2009 sló öll aðsóknarmet, aldrei hafa fleiri gestir sótt vökuna heim til að kynna sér viðfangsefni jafnmargra vísinda- og fræðimanna, en 2.790 manns komu á Vísindavökuna á föstudaginn var. Rannís þakkar sýnendum, styrktaraðilum og samstarfsaðilum fyrir frábæra samvinnu. Sjáumst á Vísindavöku 2010!

Forvarnir í læknisfræði - Góðmennska á villigötum?

Dr. Jóhann Ágúst Sigurðsson yfirlæknir Þróunarstofu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Dr. Linn Getz trúnaðarlæknir á LSH og dósent við læknadeild Norwegian University of Science and Technology, velta upp spurningum um gildi forvarna á Vísindakaffi í kvöld, sem verður á Súfistanum Iðuhúsinu kl. 20:00-21:30 í kvöld.  Forvarnarstarf og heilsuvernd eru af hinu góða. Hins vegar hefur verið varað við því í virtum fagtímaritum á undanförnum árum að ýmsar heilsutengdar aðgerðir í nafni forvarna hafa verið gerðar að söluvöru og þar með heilbrigðisþjónusta að markaðstorgi þar sem megin áhersla er lögð á sölu á þjónustu til hinna frísku á kostnað þeirra veiku. Í slíkum tilvikum er gert meira úr vandamálinu en efni standa til og boðið upp á úrlausnir sem geta verið kostnaðarsamar, vafasamar eða siðferðilega umdeildar. Þessi aðferð hefur verið kennd við ,,völd góðmennskunnar" (Power of Goodness), en með því hugtaki er vísað til þeirra valda eða áhrifa sem til dæmis heilbrigðisstéttir geta fengið með því að telja fólki trú um að aðgerðir þeirra og úrlausnir séu alltaf til góðs. Líkanarannsóknir á fjölmörgum klíniskum leiðbeiningum í læknisfræði benda sterklega til þess að of mikið sé gert úr vandamálinu í þá veru að næstum allir fullorðnir verði skilgreindir sem sjúkir og þurfi að vera undir stöðugu eftirliti lækna. Hvaða afleiðingar hefur slíkt ofmat á þjóðarsálina, útgjöld til heilbrigðismála, lyfjanotkun, mannafla, verkaskiptingu heilbrigðisstétta og heilsu fólks svo eitthvað sé nefnt. Lausnirnar gagnvart einstaklingum felast m.a. í að upplýsa fólk sem mest um kosti og galla forvarna, þannig að það geti tekið virkan þátt í að hafa árif á heilsu sína.

Harðsnúin klíka föðurlandssvikara á þriðja Vísindakaffinu í kvöld

Umræðan um hugsanlega aðild Íslands að ESB verður í brennidepli á Vísindakaffi í kvöld, en þá mun Magnús Árni Magnússon forstöðumaður Félagsvísindastofnunar HÍ fjalla um hvernig umræðan hefur þróast og hvernig orðræða er notuð í því samhengi. Hann mun líta til umræðunnar á Möltu, en þegar þessi litla eyþjóð gekk inn í ESB fyrir nokkrum árum, einkenndist umræðan um margt af svipuðum aðferðum og hér. Harðsnúin klíka föðurlandssvikara á Vísindakaffi í kvöld kl. 20.00-21.30 á Súfistanum í Iðuhúsinu! Nánar á: www.rannis.is/visindavaka/visindakaffi

Neytendasálfræðin krufin til mergjar á öðru Vísindakaffinu

Á öðru Vísindakaffinu, sem haldið var á þriðjudagskvöldið, fjallaði Dr. Valdimar Sigurðsson frá viðskiptadeild HR um neytendasálfræði og markaðssetningu matvæla í verslunum. Er eitthvað að marka neytendur? Nærri 50 manns hlýddu á áhugavert spjall Valdimars ogt höfðu miklar skoðanir á hegðun fólks í verslunum.

Húsfyllir á fyrsta Vísindakaffinu

Um 70 manns mættu á fyrsta Vísindakaffið í gærkvöldi, þar sem Dr. Guðrún Nordal fjallaði um atburði sem sagt er frá í Sturlungu og hvernig þeir ríma við atburði samtímans. Gestir þáðu kaffi og skemmtilegar umræður spunnust um efnið.


Sturlunga og nútíminn á fyrsta Vísindakaffinu í kvöld

Fyrsta Vísindakaffið er í kvöld, mánudag 21. sept. kl. 20:00-21:30 á Súfistanum, Iðuhúsinu Lækjargötu 2. Dr. Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar  fjallar um hvernig fíkn ungra karlmanna í völd og fé réði miklu um fall í íslensku samfélagi í tíð Sturlunga. Þetta þykir mörgum ríma óþægilega við fjölda atburða í nútímanum. Erindi Guðrúnar heitir "Sturlunga: handbók fyrir ráðvillta nútímaþjóð". Alvarlegt málefni með léttum undirtóni!

Aldrei fleiri á Vísindavöku

Vísindavaka Rannís var haldin föstudaginn 26. september sl. í Listasafni Reykjavíkur. Aldrei hafa fleiri gestir sótt Vísindavökuna, en um 2000 manns lögðu leið sína í Listasafnið til að hitta vísindamenn og kynnast viðfangsefnum þeirra. Við opnunina voru afhent verðlaun í teiknisamkeppni barna og ljósmyndasamkeppni unga fólksins þar sem efnið var „Vísindin í daglegu lífi“, auk þess sem viðurkenning Rannís fyrir framlag til Vísindamiðlunar var veitt. Að þessu sinni hlaut Örnólfur Thorlacius viðurkenninguna. Hallgrímur Jónasson forstöðumaður Rannís og Hellen M. Gunnarsdóttir deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu afhentu verðlaunin. Vísindavakan er haldin í tilefni af Degi Evrópska vísindamannsins og er hún haldin á sama tíma í helstu borgum Evrópu. Markmiðið með framtakinu er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Áhersla var lögð á lifandi kynningar og skemmtilega og fræðandi viðburði fyrir alla fjölskylduna. Rannís þakkar samstarfsaðilum, sýnendum, styrktaraðilum, gestum og öðrum þátttakendum. Sjáumst á Vísindavöku 2009!

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband