Vísindakaffi á Akrueyri og Sauðárkróki í kvöld um vaxtarbrodda og vísindi

Tvö Vísindakaffi verða haldin á Norðurlandi í kvöld í tengslum við Vísindavöku 2009. Vísindakaffið á Akrueyri ber yfirskriftina: "Mun Eyjafjörður verða helsti vaxtarbroddur Íslands?" og er haldið á Friðriku V., og á Sauðárkróki er titill Vísindakaffisins "Er vit í vísindum á landsbyggðinni? - Hvert er förinni heitið?" en það er haldið á Kaffi Krók. Spekingarnir sem hefja spjallið á AKureyri koma frá Háskólanum á Akureyri, en það eru þeir Hreiðar Þór Valtýsson lektor, Jón Þorvaldur Heiðarsson lektor og Steingrímur Jónsson prófessor. Pétur Halldórsson útvarpsmaður hjá Ríkisútvarpinu stýrir umræðum. Á Sauðárkróki býður Háskólinn á Hólum til almennra kaffispjalls um hlutverk vísinda á landsbyggðinni og mun Þórarinn Sólmundarson frá þróunarsviði Byggðastofnunar stýra umræðum.


Harðsnúin klíka föðurlandssvikara á þriðja Vísindakaffinu í kvöld

Umræðan um hugsanlega aðild Íslands að ESB verður í brennidepli á Vísindakaffi í kvöld, en þá mun Magnús Árni Magnússon forstöðumaður Félagsvísindastofnunar HÍ fjalla um hvernig umræðan hefur þróast og hvernig orðræða er notuð í því samhengi. Hann mun líta til umræðunnar á Möltu, en þegar þessi litla eyþjóð gekk inn í ESB fyrir nokkrum árum, einkenndist umræðan um margt af svipuðum aðferðum og hér. Harðsnúin klíka föðurlandssvikara á Vísindakaffi í kvöld kl. 20.00-21.30 á Súfistanum í Iðuhúsinu! Nánar á: www.rannis.is/visindavaka/visindakaffi

Neytendasálfræðin krufin til mergjar á öðru Vísindakaffinu

Á öðru Vísindakaffinu, sem haldið var á þriðjudagskvöldið, fjallaði Dr. Valdimar Sigurðsson frá viðskiptadeild HR um neytendasálfræði og markaðssetningu matvæla í verslunum. Er eitthvað að marka neytendur? Nærri 50 manns hlýddu á áhugavert spjall Valdimars ogt höfðu miklar skoðanir á hegðun fólks í verslunum.

Húsfyllir á fyrsta Vísindakaffinu

Um 70 manns mættu á fyrsta Vísindakaffið í gærkvöldi, þar sem Dr. Guðrún Nordal fjallaði um atburði sem sagt er frá í Sturlungu og hvernig þeir ríma við atburði samtímans. Gestir þáðu kaffi og skemmtilegar umræður spunnust um efnið.


Sturlunga og nútíminn á fyrsta Vísindakaffinu í kvöld

Fyrsta Vísindakaffið er í kvöld, mánudag 21. sept. kl. 20:00-21:30 á Súfistanum, Iðuhúsinu Lækjargötu 2. Dr. Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar  fjallar um hvernig fíkn ungra karlmanna í völd og fé réði miklu um fall í íslensku samfélagi í tíð Sturlunga. Þetta þykir mörgum ríma óþægilega við fjölda atburða í nútímanum. Erindi Guðrúnar heitir "Sturlunga: handbók fyrir ráðvillta nútímaþjóð". Alvarlegt málefni með léttum undirtóni!

Áhugaverð Vísindakaffi í næstu viku

Dagskrá Vísindakaffikvöldanna er komin! Komið og takið þátt í skemmtilegum umræðum um rannsóknaverkefni sem koma öllum við. Vísindakaffið verður haldið í Súfistanum, 21., 22., 23. og 24. september kl. 20:00-21:30 hvert kvöld og eitt Vísindakaffi fyrir norðan, á Friðriki V., 24. sept. kl. 20:00-21:30. Nánar HÉR.

Fjölbreytt og skemmtileg Vísindavaka í vændum

Allir háskólar landsins og fjölmörg fyrirtæki og stofnanir hafa skráð sig til þátttöku á Vísindavöku 2009 og er ljóst að viðfangsefnin, sem kynnt verða, munu verða afar fjölbreytt. Á Vísindavöku gefst tækifæri til að hitta vísindafólk og skoða hvað það er að fást við og er öllum vísindagreinum gert jafnhátt undir höfði. Vísindavakan verður haldin föstudaginn 25. september nk. í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsinu, kl. 17-22. Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi, en viðburðurinn er styrktur af 7. rannsóknaáætlun ESB. Hér er tengill í vefsíðu Vísindavökunnar.

Vísindavaka 25. september 2009

Vísindavakan 2009 verður haldin föstudaginn 25. september 2009 í tengslum við Dag vísindamannsins í Evrópu. Þar gefst fólki kostur á að hitta vísindamenn og kynna sér viðfangsefni þeirra. Fylgist með dagskrá, sýnendum og uppákomum hér á Vísindavökublogginu þegar nær dregur!


Aldrei fleiri á Vísindavöku

Vísindavaka Rannís var haldin föstudaginn 26. september sl. í Listasafni Reykjavíkur. Aldrei hafa fleiri gestir sótt Vísindavökuna, en um 2000 manns lögðu leið sína í Listasafnið til að hitta vísindamenn og kynnast viðfangsefnum þeirra. Við opnunina voru afhent verðlaun í teiknisamkeppni barna og ljósmyndasamkeppni unga fólksins þar sem efnið var „Vísindin í daglegu lífi“, auk þess sem viðurkenning Rannís fyrir framlag til Vísindamiðlunar var veitt. Að þessu sinni hlaut Örnólfur Thorlacius viðurkenninguna. Hallgrímur Jónasson forstöðumaður Rannís og Hellen M. Gunnarsdóttir deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu afhentu verðlaunin. Vísindavakan er haldin í tilefni af Degi Evrópska vísindamannsins og er hún haldin á sama tíma í helstu borgum Evrópu. Markmiðið með framtakinu er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Áhersla var lögð á lifandi kynningar og skemmtilega og fræðandi viðburði fyrir alla fjölskylduna. Rannís þakkar samstarfsaðilum, sýnendum, styrktaraðilum, gestum og öðrum þátttakendum. Sjáumst á Vísindavöku 2009!

Til hamingju með daginn vísindamenn!

VísindavakaVísindavaka 2008 er í dag, föstudaginn 26. september, í tilefni af Degi Evrópska vísindamannsins og er hún haldin á sama tíma í helstu borgum Evrópu. Vísindavakan verður í Listasafni Reykjavíkur kl. 17-22. Við opnunina verða afhent verðlaun í teiknisamkeppni barna og ljósmyndasamkeppni unga fólksins, auk þess sem viðurkenning Rannís fyrir framlag til Vísindamiðlunar verður veitt.  Markmiðið með framtakinu er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Verður það gert með lifandi kynningum og boðið upp á skemmtilega og fræðandi viðburði fyrir alla fjölskylduna. Allar vísindagreinar eru kynntar á Vísindavöku, hugvísindi jafnt sem raunvísindi. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband